56. fundur
efnahags- og viðskiptanefndar á 146. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, þriðjudaginn 13. júní 2017 kl. 13:04


Mættir:

Óli Björn Kárason (ÓBK) formaður, kl. 13:04
Jón Steindór Valdimarsson (JSV) 1. varaformaður, kl. 13:04
Vilhjálmur Bjarnason (VilB) 2. varaformaður, kl. 13:11
Andrés Ingi Jónsson (AIJ) fyrir Katrínu Jakobsdóttur (KJak), kl. 13:04
Lilja Alfreðsdóttir (LA), kl. 13:04
Oddný G. Harðardóttir (OH) fyrir Loga Einarsson (LE), kl. 13:04
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (RBB), kl. 13:16
Smári McCarthy (SMc), kl. 13:04

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Brynjar Níelsson boðuðu forföll. Jón Steindór Valdimarsson vék af fundi kl. 13:58.

Nefndarritari: Gunnlaugur Helgason

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 13:04
Fundargerð 55. fundar var samþykkt.

2) Sala á hlut í Arion banka hf. Kl. 13:04
Á fund nefndarinnar komu Björk Sigurgísladóttir, Gísli Örn Kjartansson og Jón Þór Sturluson frá Fjármálaeftirlitinu.

Andrés Ingi Jónsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Starfsfólk Fjármálaeftirlitsins mætti á fund efnahags og viðskiptanefndar þann 13. júní 2017 að beiðni minni hluta nefndarinnar. Tilgangurinn var að fylgja eftir fyrirspurnum frá nefndinni varðandi sölu á hlut í Arion banka hf. og skriflegum svörum sem nefndinni bárust frá Fjármálaeftirlitinu fyrir nokkru.

Minni hluti nefndarinnar telur að skýra þurfi betur rökstuðning Fjármálaeftirlitsins fyrir því að enginn hinna nýju hluthafa í Arion banka hf. fari með virkan eignarhlut í bankanum, eins og fram kom í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins 31. mars sl. til fjármála- og efnahagsráðherra að væri mat stofnunarinnar.

Minni hlutinn telur að það skorti frekari rökstuðning fyrir því að beint eða óbeint eignarhald vogunarsjóðanna, sem eru jafnframt kröfuhafar í Kaupþingi ehf. og Kaupskilum ehf., fari ekki yfir 10% og myndi því virkan eignarhlut ef horft er í gegnum eignarhald þeirra. Enn fremur telur minni hlutinn að spurningum í tengslum við tímalínu söluferlisins sé enn ósvarað, varðandi það að tilboð um kaupin hafi verið samþykkt 13. febrúar sl. en ekki upplýst um þau fyrr en 19. mars sl.

Að auki telur minni hlutinn að skýra þurfi lagalega skilgreiningu á samstarfi tengdra aðila í tengslum við kaup á hlut í fjármálafyrirtækjum, hvort sem um er að ræða formlegt eða óformlegt samstarf eins og fjallað er um í nýjum viðmiðunarreglum varðandi virka eignarhluti frá Evrópsku eftirlitsstofnununum á fjármálamarkaði sem taka eiga gildi í október 2017.

Minni hlutinn tekur undir með forstjóra Fjármálaeftirlitsins að tímabært sé að víkja frá skilyrðunum sem sett voru um aðkomu Kaupþings og nýrra eigenda Arion banka hf. að rekstri hans hinn 8. janúar 2010, þar sem um eitt og hálft ár er liðið frá því að því að nauðasamningar voru gerðir.

Fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra fögnuðu opinberlega sölunni á hlutum í Arion banka hf. án þess að hafa gert sér grein fyrir því hverjir hinir nýju eigendur væru eða hvort það kæmi betur út fyrir ríkissjóð að ganga inn í kaupin eða ekki. Það er afar gagnrýnivert að mati minni hluta nefndarinnar, einkum nú þegar mjög brýnt er að gagnsæi ríki í tengslum við söluferlið á Arion banka hf. til að auka traust og tiltrú á íslensku fjármálakerfi og fjármálamarkaði.

Minni hlutinn gagnrýnir enn fremur að hafa ekki fengið fullnægjandi gögn varðandi staðfest mat fjármála- og efnahagsráðherra á því hvort kaupverðið á hlutum í Arion banka hf. væri undir eða yfir því marki sem þyrfti til að virkja forkaupsrétt íslenska ríkisins.

Minni hlutinn leggur áherslu á að vera upplýstur jafnóðum af hálfu Fjármálaeftirlitsins um vinnu stofnunarinnar við mat á söluferlinu á hlutum í Arion banka hf. enda telur minni hlutinn að upplýsa þurfi nefndina með skýrum hætti um hverjir séu endanlegir fjárfestar. Allt kapp verði lagt á að tryggt sé að viðkomandi fjárfestar hafi góðan orðstír, iðki góða viðskiptahætti og séu líklegir til þess að styrkja íslenskt bankakerfi nú þegar nauðsynlegt er að vanda alla þá endurskipulagningu á íslenska fjármálakerfinu sem er fram undan.“

3) Kynning frá ABN Amro Kl. 14:15
Rætt var um málið.

4) Önnur mál Kl. 14:17
Ákveðið var að óska eftir fundi með starfshópi sem falið var að skoða kosti og galla þess að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi til að ræða skýrslu starfshópsins um efnið.

Fundi slitið kl. 14:26